Fjárhagsleg endurskipulagning Actavis er nú á lokastigum og samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins má búast við því að henni verði formlega lokið fyrir áramót.

Ekkert bendir til annars en að Björgólfur Thor Björgólfsson, í gegnum fjárfestingarfélagið Novator, haldi hlut sínum í félaginu en þó með skilyrðum frá þýska bankanum Deutsche Bank sem er stærsti kröfuhafi Actavis.

Ekki er gert ráð fyrir afskriftum á skuldum félagsins en samkvæmt heimildum blaðsins er jafnframt ekki gert ráð fyrir sölu á Actavis þrátt fyrir miklar sögusagnir um annað. Mikið hefur verið fjallað um mögulega sölu félagsins en heimildir blaðsins herma að allar slíkar hugmyndir hafi nú verið settar í bið.

Viðbót : Í prentútgáfu Viðskiptablaðsins kemur fram að Björgólfur Thor muni víkja úr stjórn Actavis. Það er ekki rétt. Björgólfur Thor mun, eins og áður hefur komið fram, víkja sem stjórnarformaður, en áfram sitja í stjórn félagsins fyrir hönd Novator.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .