Actavis opnað í dag nýja starfstöð dótturfélagss síns Lotus Labs í borginni Bngalore á Indlandi. Sú starfsstöð sem nú verður tekin í notkun, mun hýsa skrifstofur, rannsóknarstofur og aðstöðu fyrir rannsóknir. Í verksmiðjunni, sem er alls um 3.000 fermetrar, munu starfa vel á þriðja hundrað manns og er þessi áfangi mjög mikilvægur fyrir starfsemi Actavis á Indlandi.

Menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, opnaði starfstöðina með pomp og prakt en hún hefur ásamt viðskiptanefnd á vegum útflutningsráðs verið á Indlandi alla síðustu viku vegna opnun sendiráðs Íslands þar á landi og viðskiptaráðstefnu. Nýskipaður sendiherra Íslands á Indlandi, Sturla Sigurjónsson, og viðskiptasendinefnd frá Íslandi voru einnig viðstödd opnunina.

Stefán Jökull Sveinsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Actavis, segir að aukin umsvif félagsins séu í samræmi við stefnu þess að nýta þá miklu sérþekkingu sem býðst á Indlandi og styðja þannig við frekari vöxt. ?Við áætlum að auka umsvif okkar enn frekar með því að setja á stofn miðstöð fyrir geymsluþolsrannsóknir sem mun þjóna samstæðunni í Evrópu og Ameríku. Þá er það stefna okkar að nýta eldra húsnæði Lotus Labs til að styrkja rannsóknir og þróun á virkum lyfjaefnum.

Actavis hefur síðastliðið ár aukið verulega umsvif sín á Indlandi og fjárfesti m.a. í lyfjarannsóknarfyrirtækinu Lotus Labs fyrir um 1,6 milljarða ísl. króna í febrúar 2005. Lotus Labs, sem var stofnað árið 2001, er með höfuðstöðvar í Bangalore og hjá félaginu starfa um 260 manns. Félagið sérhæfir sig í klínískum rannsóknum á aðgengi lyfja, milliverkunum þeirra og læknisfræðilegum prófunum.

Árið 2005 gerði Actavis samstarfssamninga við fjögur indversk samheitalyfjafyrirtæki: Emcure, Intas, Shasun og Orchid. Samningurinn við Emcure snýst um lyfjaframleiðslu fyrir Bandaríkjamarkað en samningarnir við Shasun og Orchid snúast bæði um framleiðslu og þróun lyfja. Samningarnir tryggja lágan framleiðslukostnað auk þess sem afkastageta samstæðunnar í þróun lyfja eykst verulega. Þá hefur Actavis fjóra starfsmenn á Indlandi sem sinna viðskiptaþróun, fylgja eftir samningum og leita tækifæra fyrir félagið