Alþjóðlega lyfjafyrirtækið Actavis Group hefur aukið umsvif sín á Indlandi með kaupum á lyfjarannsóknafyrirtækinu Lotus Laboratories (?Lotus") fyrir um 1,6 milljarða ísl. króna, eða um 20 milljónir evra. Kaup Actavis eru ákveðnum skilyrðum háð, en gert er ráð fyrir að gengið verði frá kaupsamningi á næstu vikum. Þá hefur Actavis greint frá samstarfssamningi við indverska samheitalyfjafyrirtækið Emcure Pharmaceuticals (?Emcure") um framleiðslu á samheitalyfjum, þróuð af Actavis.

Lotus var stofnað árið 2001 og er með höfuðstöðvar í Bangalore. Hjá félaginu starfa um 230 manns. Félagið sérhæfir sig í klínískum rannsóknum á aðgengi lyfja, milliverkunum þeirra og læknisfræðilegum prófunum. Ekki er gert ráð fyrir að kaupin hafi fjárhagsleg áhrif á rekstur samstæðunnar til skamms tíma en komi þó annarsvegar til með að lækka þróunarkostnað félagsins til lengri tíma og hinsvegar að styðja við sókn Actavis inn á bandaríska markaðinn.

Þá hefur Actavis greint frá samstarfssamningi við indverska samheitalyfjafyrirtækið Emcure Pharmaceuticals (?Emcure"), sem snýr að framleiðslu á fjórum samheitalyfjum fyrir Bandaríkjamarkað. Samningurinn tryggir lágan framleiðslukostnað á þessum vörum, sem hafa verið þróaðar af sérfræðingum á þróunarsviði Actavis og verða markaðssettar í Bandaríkjunum.

Róbert Wessman, forstjóri Actavis, segir að kaupin á Lotus og samstarfssamningur samstæðunnar á Indlandi sé hluti af stefnu félagsins um að nýta sérþekkingu og lágan framleiðslukostnað á Indlandi og styðja þannig við vöxt félagsins. Þá tryggja kaupin á Lotus fyrsta flokks aðstöðu fyrir klínískar rannsóknir á Indlandi.