Actavis hefur í fyrsta sinn komist á svo kallaðan Fortune 500 lista, sem gefinn er út af tímaritinu Fortune í Bandaríkjunum . Á listanum eru 500 stærstu fyrirtæki Bandaríkjanna í tekjum talið.

Fram kemur í tilkynningu að eftir samruna Actavis og Watson undir nafni Actavis í október í fyrra reyndust tekjur ársins vera um 5,9 milljarðar dala, rúmlega 700 milljarðar króna. Það dugði til þess að koma fyrirtækinu í 432. sæti á lista ársins. Reiknað er með að tekjur yfirstandandi árs muni nema um 8,1 milljörðum dala, sem svara til um 960 milljörðum króna.

„Fortune 500 gefur eina skýrustu vísbendinguna um það hvernig fyrirtæki standa sig og það skipar Actavis í hóp leiðandi og virtustu stórfyrirtækja að komast á listann. Þá er þetta einnig vitnisburður um dugnað og staðfestu allra 17.000 starfsmanna fyrirtækisins,“ að því er haft eftir Paul Bisaro forstjóra Actavis.