Dótturfélag Actavis Group, Amide Pharmaceutical Inc. í Bandaríkjunum, hefur fengið samþykki bandarísku Matvæla- og lyfjastofnunarinnar (FDA) til að markaðssetja tvö ný samheitalyf; Hydromorphone Hydrochloride töflur og Dantrolene Sodium hylki.

Hydromorphone Hydrochloride töflur eru verkjastillandi lyf, notað til að meðhöndla verki, sambærilegt við frumlyfið Dilaudid frá Abbott Laboratories. Lyfið er selt í 8 mg styrkleika.

Dantrolene Sodium hylki eru sambærileg við frumlyfið Dantrium, sem selt er af Procter & Gamble. Lyfið er notað til meðhöndlunar á krampa og selt í þremur styrkleikum, 25 mg, 50 mg og 100 mg.

Í tilkynningu félagsins er það haft eftir Divya Patel, framkvæmdastjóra Norður-Ameríkusviðs Actavis Group, að þessi nýju lyf séu góð viðbót við vaxandi lyfjaúrval fyrirtækisins á markaðnum.