Actavis hefur fengið leyfi bandarísku lyfjastofnunarinnar (FDA) til að markaðssetja þunglyndislyfið Sertraline Hydrochloride í Bandaríkjunum og mun dreifing á markaði hefjast nú þegar, segir í fréttatilkynningu.

ertraline verður góð viðbót við lyfjaúrval félagsins í Bandaríkjunum og er Actavis í hópi þeirra fyrirtækja sem nú hafa fengið markaðsleyfi, segir í tilkynningunni.

Um er að ræða samheitalyf frumlyfsins Zoloft frá Pfizer, sem er eitt af þeirra söluhæstu lyfjum. Einkaleyfi frumlyfsins rann út fyrir sex mánuðum en samheitalyfjafyrirtækið Teva hafði áður tryggt sér einkarétt á sölu þess á tímabilinu. Lyfið verður fáanlegt í töfluformi Í styrkleikunum 25mg, 50mg og 100 mg í Bandaríkjunum.

Sertraline Hydrochloride töflur seldust fyrir um 3,1 milljarð Bandaríkjadala (217 milljarðar króna) á síðastliðnu ári, miðað við júní 2006, samkvæmt tölum frá IMS Health data.

Bandaríkjamarkaður er stærsti einstaki markaður Actavis og nema tekjur þar um þriðjungi af heildartekjum samstæðunnar. Fjöldi lyfjaumsókna fyrir Bandaríkjamarkað hafa aldrei verið fleiri en stefnt er að því að félagið leggi inn 40-45 umsóknir til lyfjayfirvalda, auk þess sem markaðssett verða um 18-20 ný samheitalyf á árinu 2007.