Lyfja- og matvælaeftirlit Bandaríkjanna (FDA) hefur sent íslenska samheitalyfjafyrirtækinu Actavis viðvörun í kjölfar skoðunar í lyfjaverksmiðju fyrirtækisins í New Jersey, segir í frétt Dow Jones.

Í tilkynningu Actavis segir að FDA telji að annmarkar hafi verið á tilkynningarskyldu vegna lyfja fyrirtækisins á samkeppnismarkaði sem framleidd eru í verksmiðjunni.

Actavis segir að ný lyf muni væntanlega ekki koma frá verksmiðjunni fyrr en leyst verður úr málinu. Actavis gerir ekki ráð fyrir því að þetta muni hafa áhrif á afkomu fyrirtækisins á árinu, segir í fréttinni.

Actavis hefur þegar sent FDA svar og segir fullvíst að þær ráðstafanir sem fyrirtækið hefur tekið í dag og samstarfsvilji þeirra við FDA muni leysa úr málinu vandræðalaust, segir í fréttinni.