Actavis er fyrst á markað með mígrenilyfið Sumatriptan í Svíþjóð, en einkaleyfi frumlyfsins rann nýlega út. Lyfið er þróað og framleitt á Íslandi og verður fáanlegt í 50mg og 100mg húðuðum töflum að því er kemurfram í tilkynningu fyrirtækisins.

Actavis hefur markaðssett 28 samheitalyf á Norðurlöndunum á árinu 2006 og er félagið í hópi stærstu lyfjafyrirtækjanna á hverjum markaði. Búist er við að tekjur á svæðinu verði tæplega 9 milljarðar króna á árinu 2006, eða um 7% af heildartekjum samstæðunnar.

Sumatriptan er samheitalyf frumlyfs Glaxo SmithKline, Imigran® og Imigran Novum® og er notað við bráðu mígreni. Sala á frumlyfinu Imigran® og Imigran Novum® töflum í Svíþjóð nam einum milljarði króna á síðasta ári og er lyfið það söluhæsta í sínum flokki.

Um Actavis

Actavis er alþjóðlegt lyfjafyrirtæki sem sérhæfir sig í þróun, framleiðslu og sölu samheitalyfja. Samstæðan hefur einnig styrkt stöðu sína sem seljandi lyfjahugvits. Félagið heldur uppá 50 ára afmæli sitt á árinu. Hjá Actavis starfa meira en 10,000 manns í yfir 30 löndum. Höfuðstöðvar félagsins eru á Íslandi en fyrirtækið rekur auk þess þróunarsetur og verksmiðjur í Evrópu, Bandaríkjunum og Asíu. Actavis reiknar með að heildarsala ársins 2006 nemi um 1.4 milljörðum evra, og að um 7% þeirrar sölu verði á Norðurlöndunum.