Actavis hefur sett nýtt samheitalyf, Quinapril, á markað í Þýskalandi. Medis, dótturfélag Actavis sem annast sölu til þriðja aðila, var fyrsta fyrirtækið sem fékk markaðsleyfi fyrir samheitalyfið Quinapril eftir að einkaleyfi frumlyfsins rann út. Lyfið er selt til annarra lyfjafyrirtækja, sem síðan markaðssetja það og selja undir sínu vörumerki. Meðal viðskiptavina félagsins í Þýskalandi eru mörg stærstu samheitalyfjafyrirtækin þar í landi.

Quinapril, sem er hjartalyf, fyrst og fremst notað við háþrýstingi, er framleitt hjá Actavis á Íslandi. Lyfið fer fyrst á markað í Þýskalandi og inn á aðra markaði í framhaldinu.

Guðbjörg Edda Eggertsdóttir, framkvæmdastjóri sölu til þriðja aðila hjá Actavis, segir að ekki sé gert ráð fyrir því að lyfið verði meðal söluhæstu lyfja félagsins en mikilvægt sé að vera fyrst á markað með ný samheitalyf þegar einkaleyfi renna út. "Þýskaland er mikilvægur markaður fyrir Actavis og við erum ákveðin í að auka enn frekar markaðshlutdeild okkar þar."