Actavis í Þýskalandi hefur gert samstarfssamning við þýska sjúkrasamlagið Allgemeine Ortskrankenkassen (AOK), segir í fréttatilkynningu frá félaginu.  Í samningnum felst að AOK mælir með að þarlendir læknar ávísi tilteknum lyfjum frá Actavis, í þeim tilgangi að lækka kostnað í þýska heilbrigðiskerfinu.

"Það er ánægjulegt að sjá að við erum eitt af þeim fáu fyrirtækjum sem sjúkrasamlagið ákveður að vinna með. Það endurspeglar vaxandi styrk okkar í Þýskalandi. Hingað til hefur sala okkar til AOK ekki verið mikil, en við væntum við þess að hún muni aukast verulega á árinu og að skjólstæðingar þeirra, sem eru meira en 25 milljónir manna, munu njóta góðs af þessum samningi," segir Sigurður Óli Ólafsson, aðstoðarforstjóri Actavis.

AOK hefur valið eitt til þrjú lyfjafyrirtæki sem samlagið mælir með, fyrir hvert þeirra 43 lyfja sem óskað var eftir tilboðum í. Actavis gerði AOK tilboð í 25 af þeim lyfjum og náðst hefur samkomulag um 16 þeirra, sem AOK mun mæla með til ávísunar. Actavis er með flest lyf einstakra fyrirtækja á listanum.

Þýskaland er þriðji stærsti markaður Actavis og námu tekjur á árinu 2006 um 8 milljörðum króna. Actavis hefur á undanförnum mánuðum fjölgað sölumönnum á markaðnum umtalsvert, og eru þeir í dag um 130 talsins. Markaðssett verða um 10 ný samheitalyf í Þýskalandi á árinu 2007, sem munu styðja við vaxandi lyfjaúrval á markaðnum.