Samkvæmt Bloomberg fréttaveitunni gæti allt eins komið til greina að selja bandaríska hluta Actavis sér en félagið er nú í sölumeðferð. Til að liðka fyrir sölunni er talið hugsanlegt að brjóta félagið upp hefur Bloomberg eftir heimildarmönnum sínum.

Önnur umferð söluferilsins er hafin og hafa komið tilboð sem bæði fela í sér greiðslu með hlutafé og reiðufé.

Actavis réði Merrill Lynch & Co.sem ráðgjafa við endurskipulagningu félagsins á síðasta ári en talsmenn félagsins hafa aldrei viljað staðfesta að það sé í sölumeðferð.

Talið er að söluverð sé nálægt 6 milljörðum evra en frétt Bloomberg hefur eftir heimildum að nær sé að tala um 4 til 4,5 milljarða evra.

Watson Pharmaceuticals Inc. í Bandaríkjunum og Sanofi-Aventis SA í Frakklandi hafa verið nefndir sem hugsanlegir tilboðsgjafar.