Tveimur dótturfélögum Actavis Group í Bandaríkjunum var í vikunni gert að greiða alls 170 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði 19,5 milljarða króna, í skaðabætur til yfirvalda vegna meintrar ólöglegrar verðlagningar.

Fjölmörg mál eru í gangi gegn lyfjaframleiðendum víðsvegar um Bandaríkin. Þannig hefur Actavis Group nú þegar samið um greiðslur í fjórum fylkjum Bandaríkjanna en það þykir oft ódýrara en að reka mál fyrir dómstólum.

Um er að ræða félögin Actavis Mid Atlantic LLC og Actavis Elizabeth LCC en það var kviðdómur í Texas sem komst að niðurstöðunni.Málið snýst um verðlagningu á lyfjum sem voru seld til bandaríska sjúkrasamlagsins Medicaid. Ven-A-Care, lögmannsstofa í Flórída, höfðaði málið en sú stofa hefur höfðað fjölda mála gegn lyfjafyrirtækjum víðsvegar um Bandaríkin.

Þó að upphæðin sem Actavis var dæmt til að greiða sé há, um 170 milljónir dala, er hún ekki há í samanburði við árstekjur samstæðunnar sem eru um 2 milljarðar dala.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir Tölublöð.