Hagnaður Actavis á öðrum ársfjórðungi var undir væntingum bæði stjórnenda félagsins og greiningardeilda bankanna og að mati Greiningar Íslandsbanka hefði félagið átt að gefa út afkomuviðvörun. Í Morgunkornum bankans kemur fram að félagið tilkynnti fyrr á árinu að fyrsti ársfjórðugnur yrði lakasti fjórðungur ársins en annar og þriðji fjórðungur yrðu sterkari. "Hagnaður annars ársfjórðungs er einungis lítillega yfir fyrsta ársfjórðungi og EBITDA sem hlutfall af tekjum mun lægri en sést hefur hjá félaginu. Þessi árangur er ekki í takt við það sem stjórnendur félagsins hafa gefið í skyn og veldur því vonbrigðum," sagði í Morgunkornum.