Actavis Group hefur áhuga á að vaxa frekar með yfirtökum í Bandaríkjunum, segir Halldór Kristmannsson, talsmaður félagsins.

Actavis dró sig nýverið út úr uppboðslag um eignir bandaríska lyfjafyrirtækisins aaiPharma Inc. og segir Halldór félagið vera með augun opin fyrir öðrum tækifærum.

"Við erum sífellt að skoða tækifæri og ef við rekumst á áhugavert fyrirtæki þá skoðum við það," segir Halldór. Hann segir fyrirtækið stefna á aukinn ytri vöxt jafnt í Bandaríkjunum sem annars staðar.

Bandaríska lyfjafyrirtækið Xanodyne Pharmaceuticals Inc. hefur samþykkt kaup á eignum aaiPharma, sem er gjaldþrota, fyrir 215 milljónir Bandaríkjadala (14 milljarðar íslenskra króna). Halldór vildi ekki gefa upp virði tilboðs Actavis í eignir félagsins en fimm fyrirtæki gerðu tilraun til þess að taka þær yfir. Fyrsta tilboð Xanodyne hljóðaði upp á 170 milljónir Bandaríkjadala en fyrirtækið hækkaði tilboð sitt um 45 milljónir til þess að tryggja sér eignir aaiPharma.

Frekari samþjöppun á samheitalyfjamarkaði

Halldór reiknar með frekari samþjöppun á samheitalyfjamarkaði. Bandaríska lyfjafyrirtækið Novartis hefur samþykkt að kaupa keppinautinn Eon Labs fyrir 1,3 milljarða Bandaríkjadala (84 milljarða íslenskra króna). Samkeppnisyfirvöld þar í landi hafa samþykkt yfirtökuna með því skilyrði að félagið losi sig við þrjú samheitalyf til annarra aðila.

Halldór segir að samheitalyfjafyrirtækið Amide, sem Acatavis samþykkti að kaupa í maí, muni kaupa lyfin þrjú. Hann sagðist ekki geta gefið upp kaupverðið. Novartis segir sölu á lyfjunum hafa skilað félaginu um 20-30 milljónum Bandaríkjadala á ári, sem samsvarar um 1,3-1,95 milljörðum króna.

Dótturfélag selur einingu sem ekki fellur að kjarnastarfsemi

Actavis Bulgaria, dótturfélag Actavis Group, hefur samþykkt að selja dýralyfjaeiningu fyrirtækisins.

Halldór segir sölu starfseminnar í samræmi við yfirlýsta stefnu félagsins um að selja einingar sem ekki falla að kjarnastarfsemi Actavis.

"Viljayfirlýsing um söluna var gerð í febrúar við búlgarska lyfjafyrirtækið Biovet AD Peshtera, en um er að ræða framleiðslu á virkum efnum til lyfjagerðar (API), að stærstum hluta fyrir dýralyf. Actavis mun reka hluta af verksmiðjunni áfram, sem tengist framleiðslu á fullunnum lyfjum. Fjárhagsupplýsingar varðandi söluna eru ekki gefnar upp en búast má við að salan hafi óveruleg áhrif á starfsemi og rekstrarniðurstöðu Actavis á árinu 2005," segir í tilkynningu félagsins til Kauphallar Íslands.

Áreiðanleikakönnun vegna sölunnar er lokið og hefur kaupsamningur verið undirritaður, segir í tilkynningunni.

Verskmiðja Actavis í Búlgaríu semur um aðgang að mörkuðum ESB

Verksmiðja Actavis Bulgaria, áður Balkanpharma, hefur fengið samþykki frá dönskum lyfjayfirvöldum til þess að selja lyf á mörkuðum Evrópusambandsins (ESB), segir framkvæmdastjóri fyrirtækisins, Vladimir Afenliev.

Actavis Bulgaria áætlar að fjárfesta fjórar milljónir evra (313 milljónir íslenskra króna) í verksmiðjunni til þess að uppfylla skilyrði til útflutnings til ESB-landanna, segir Afenliev. Verksmiðjan er staðsett í Dupnitsa en félagið starfrækir einnig verksmiðjur í Razgrad og Troyan. Félagið fjárfesti tæplega 50 milljónir evra í verksmiðjunum þremur á árunum 2000-2004.

Actavis Bulgaria er með 3.500 starfsmenn í vinnu. Móðurfélagið Actavis er með um 7.000 starfsmenn í 28 löndum.