Actavis hefur tilkynnt króatíska fjármálaeftirlitinu og Pliva þá fyrirætlan sína að gera yfirtökutilboð í allt hlutafé sem ber atkvæðisrétt í króatíska samheitalyfjafyrirtækið Pliva. Með tilkynningunni, staðfestir Actavis áhuga sinn á því að gera hluthöfum PLIVA bindandi yfirtökutilboð.

Í tilkynningu Actavis kemur fram að þetta var gert í samræmi við ákvæði 2. málsgreinar 5. greinar króatískra laga nr. 84/02 og nr. 87/02, um yfirtöku almenningshlutafélaga. Upplýsingar um fyrirætlan Actavis verða birtar almenningi með tilkynningu þess efnis í stjórnartíðindum í Króatíu og dagblöðunum Jutarnji list og Večernji list.

Actavis lýsti því yfir þann 29. júní 2006 að félagið væri tilbúið til að greiða hluthöfum Pliva 723 kúnur til viðbótar við arðgreiðslu ársins 2005, eða alls 735 kúnur á hlut, sem samsvarar um 2,3 milljörðum dollara eða rúmlega 170 milljörðum króna.

Actavis hefur nú þegar lagt inn umsókn til samkeppnisyfirvalda á öllum markaðssvæðum sínum þar sem sóst er eftir samþykki við samruna Pliva og Actavis.