Samþykkt var á hluthafafundi Actavis í morgun að stjórn félagsins er heimilt að hækka hlutafé þess í A-flokki um allt að 300 milljónir að nafnverði til að fjármagna hugsanlega yfirtöku á króatíska fyrirtækinu Pliva, segir í tilkynningu til Kauphallar Íslands.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur félagið áhuga á að ná því sem samsvarar 200 milljónum evra með hlutafjárhækkuninni.

Actavis og bandaríska fyrirtækið Barr Pharmaceuticals berjast nú um að kaupa Pliva og bæði félögin hafa gert óformleg kauptilboð í kringum 2,3 milljarðar Bandaríkjadala, sem samsvarar um 170 milljörðum króna.

Á hluthafafundinum var einnig samþykkt að stjórninni er heimilt að breyta láni að fjárhæð allt að 525 milljónir evra, sem samsvarar rúmlega 48 milljörðum íslenskra króna, í hlutafé. Vaxtakjör lánsins eru 15% vextir ofan á EURIBOR eða LIBOR millibankavexti og heimilt er að greiða upp lánið á lánstímanum.

Lánið er hluti af lánsfjármögnun Actavis sem ætla er að styðja við kaupin á Actavis og hafa bankarnir HSBC, JP Morgan og UBS samþykkt að sölutryggja lánið.

Sérfræðingar telja hlutafjáraukninguna benda til þess að Actavis sé reiðubúið að hækka kauptilboð sitt í Pliva.