Actavis hefur hækkað óformlegt kauptilboð sitt í króatíska samheitalyfjafyrirtækið Pliva í HKR630 úr HKR570, eða í 1,85 milljarða Bandaríkjadali úr 1,6 milljörðum, segir í fréttatilkynningu frá Actavis.

Samkvæmt kauptilboðinu er Pliva verðmetið á rúmlega 146 milljarða íslenskra króna á núverandi gengi.

Stjórnendur Pliva höfnuðu fyrra tilboði Actavis þar sem þeir töldu það ekki endurspegla virði félagsins og ekki taka mið af framtíðarhorfum þess.

Pliva hefur ráðið fjárfestingabankann Deutsche Bank til að verjast óvinveittri yfirtöku, og skoða kosti og galla sameiningar í ljósi aukinnar samþjöppunar á samheitalyfjamarkaði í Evrópu.

Róbert Wessmann, forstjóri Actavis, sagði í mars að það kæmi til greina að hækka tilboðið í kjölfar áreiðanleikakönnunar. Actavis hefur enn ekki fengið að framkvæma áreiðanleikakönnun, en hefur þrátt fyrir það ákveðið að hækka kauptilboðið.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur Actavis tryggt fjármögnun og hafa fjárfestingabankarnir J.P. Morgan og HSBC samþykkt lána til kaupanna.