Fyrirtækið Actavis í Hafnarfirði hlaut Viðskiptaverðlaun ársins 2005 en verðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn á Grand Hótel í hádeginu. Það var Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra sem afhenti verðlaunin. Um leið var breska fyrirtækið Mosaic valinn frumkvöðull ársins. Það voru þeir Róbert Wessman forstjóri Actavis og Stewart Binnie, stjórnarformaður Mosaic, sem tóku við verðlaununum.

Í umsögn dómnefndar kemur fram að fyrirtækið Actavis í Hafnarfirði er orðið fjórða stærsta fyrirtæki heims þegar kemur að sölu og markaðssetningu á samheitalyfjum. Markaðsvirði félagsins er rúmlega 160 milljarðar króna og eru það aðeins viðskiptabankarnir þrír sem eru stærri þegar kemur að markaðsvirði í íslensku Kauphöllinni. Útrás fyrirtækisins hefur verið ævintýri líkust en óhætt er að segja að síðasta ár hafi verið óvenju athafnasamt, meira að segja á mælikvarða Actavis, enda hefur félagið keypt átta félög á árinu, þar af tvö mjög stór félög í Bandaríkjunum fyrir samtals 1,3 milljarða Bandaríkjadala eða tæpa 85 milljarða króna. Þegar saman er tekið hefur félagið keypt ríflega 20 félög á undanförnum fimm árum. Í dag vinna ríflega 10 þúsund starfsmenn hjá Actavis í 32 löndum og var velta félagsins á síðasta ári 1,3 milljarðar evra. Gera má ráð fyrir að veltan aukist umtalsvert á næsta ári en félagið er núna með 600 vörur á markaði og ríflega 200 lyf í þróunar- og skráningarferli. Actavis er glæsilegt dæmi um hvað þekking, djörfung og athafnasemi getur áorkað. Actavis er því vel að Viðskiptaverðlaunum ársins komið.

Breska félagið Mosaic Fashions er fyrsta félagið, sem á rætur sínar að rekja erlendis, sem skráð er í Kauphöll Íslands. Skráning félagsins átti sér stað þegar rekstrarumhverfi smásölufyrirtækja í Bretlandi var erfitt, en á sama tíma var áframhaldandi uppsveifla á íslenskum hlutabréfamarkaði.

Tenging stjórnenda félagsins við Ísland og útsjónarsemi stærstu eigendanna leiddi því til vel heppnaðrar skráningar á íslenskan hlutabréfamarkað, þar sem félaginu tókst að ná sér í verulegt fjármagn til að styrkja reksturinn og létta á skuldabyrði félagsins eftir samruna vörumerkja núverandi félags. Vörumerki félagins eru Karen Millen, Whistles, Coast og Oasis ? sem eru þekkt tískuvörumerki um víða veröld.

Þrátt fyrir erfitt rekstrarumhverfi í Bretlandi og almennan samdrátt í smásöuverslun þar í landi var afkoma Mosaic Fashions yfir væntingum. Mosaic opnaði 15 nýjar sérverslanir á fyrri árshelmingi og 28 nýjar búðir í vörumörkuðum í Bretlandi og í Evrópu. Í Kína opnaði félagið 11 nýjar sérleyfisverslanir og 33 nýjar búðir í vörumörkuðum.

Skráning félagins í Kauphöll Íslands, sem nýlega ákvað að hefja ekki samrunaviðræður við norrænu kauphallarsamstæðuna OMX, gæti bætt kynningu og orðspor Kauphallarinnar erlendis og orðið til þess að fleiri erlend fyrirtæki sæki til Íslands í kjölfarið. Mosaic Fashions er því sannur frumkvöðull í íslensku viðskiptalífi segir í niðurstöðu dómnefndar Viðskiptablaðsins.