Höfuðstöðvar Actavis í Zug
Höfuðstöðvar Actavis í Zug
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Lyfjaframleiðandinn Actavis er eitt þriggja fyrirtækja, sem eiga í viðræðum um hugsanleg kaup á pólska lyfjaframleiðandanum Polfa Warszawa. Hin tvö fyrirtækin eru pólsku fyrirtækin Polpharma og Adamed af því er fram kemur í frétt Actavis.

Polski Holding Farmaceutyczny, móðurfélag Polfa Warszawa, hefur tilkynnt að þessi þrjú fyrirtæki verði til viðræðna um kaup á Polfa Warzama.

Á fimmtudaginn 21.júlí kom fram að fimm fyrirtæki hefðu verið beðinn að leggja fram ný og hærri bindandi tilboð í fyrirtækið þar sem afkoma Polfa Warszawa var betri en gert var ráð fyrir. Nú standa þrjú fyrirtæki eftir.

Polfa Warszawa er eitt af stærstu lyfjafyrirtækjunum í Póllandi. Gangi kaup Actavis í gegn mun Pólland verða þriðji stærsti markaður Actavis á eftir Bretlandi og Bandaríkjunum.

Sölutekjur Polfa námu 90,5 milljónum evra, 15 milljörðum króna, á síðasta ári og jukst um 11,3% frá árinu á undan. Er spáð 6,1% aukningu á þessu ári.