Actavis í Bandaríkjunum hefur innkallað hjartalyfið Digitek (digoxin) þar í landi. Þetta er gert í öryggisskyni segir í frétt félagsins. Lyfið er eingöngu selt undir merkjum Bertek, sem er félag í eigu Mylan Pharmaceuticals Inc., og undir merkjum UDL Laboratories. Ein af lyfjaverksmiðjum Actavis í Bandaríkjunum framleiðir lyfið fyrir þessi fyrirtæki.

Innköllunin er að frumkvæði Actavis og í fullu samstarfi við bandarísku Matvæla- og lyfjastofnunina (FDA). Ástæðan er sú að við gæðaeftirlit félagsins fannst ein tafla af tvöfaldri þykkt. Þar sem ekki var hægt að staðfesta með 100% vissu að engin slík tafla hefði farið í umferð var talið öruggast að innkalla lyfið.   Digitek (digoxin) er hjartalyf og getur valdið veikindum eða jafnvel verið lífshættulegt sé það tekið í of stórum skömmtum. FDA hefur gegnum tíðina fengið tilkynningar frá sjúklingum um veikindi og slys vegna rangrar notkunar lyfsins. Actavis í Bandaríkjunum fékk 11 tilkynningar um aukaverkanir vegna lyfsins á síðastliðnu ári, en ekki er talið að þær tengist innkölluninni nú. Verið er að fara yfir tilkynningar sem borist hafa síðan greint var frá innköllun lyfsins, en ekki er enn vitað hvort nein þeirra tengist tvöfaldri þykkt eða styrk taflnanna.   Actavis hefur sent frá sér tilkynningu í Bandaríkjunum þar sem sjúklingar eru beðnir um að skila lyfinu í það apótek þar sem var keypt.