Actavis plc, móðurfélag Actavis á Íslandi, tilkynnti í dag að kaup félagsins á Allergan, sem tilkynnt var um í nóvember sl., hafi gengið í gegn í dag fyrir um 70,5 milljarða Bandaríkjadala, jafngildi um 9.800 milljarða íslenskra króna. Í kjölfar sameiningarinnar verður fyrirtækið eitt af tíu stærstu lyfjafyrirtækjum í heimi, bæði á sviði frumlyfja og samheitalyfja, með 23 milljarða dala áætlaðar tekjur fyrir árið 2015 og starfsemi í yfir 100 löndum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Sameinað fyrirtæki sérhæfir sig í frumlyfjum m.a. á sviði tauga-, meltingar-, þvagfæra-, og húðsjúkdóma sem og á sviði lýtalækninga og heilsu kvenna. Þá býður fyrirtækið einnig úrval samheitalyfja á hagstæðu verði sem og ýmsar húð- og heilsuvörur.

Sameinað fyrirtæki mun leggja áframhaldandi áherslu á rannsóknir og þróun frumlyfja, samheitalyfja og líftæknilyfja, með áætlaðri fjárfestingu fyrir um 1,7 milljarð Bandaríkjadala á ári í rannsóknir og þróun til að styðja við áframhaldandi stöðugan innri vöxt. Samlegðaráhrif verða töluverð við samruna Actavis og Allergan en gert er ráð fyrir að hagræðing í rekstri muni nema um 1,8 milljarði Bandaríkjadala á næstu 12 mánuðum.

Actavis stefnir að því að taka upp nafnið Allergan á árinu 2015 en það er enn háð samþykki hluthafa.