Gengið hefur verið frá samningi um kaup Actavis Group á einu stærsta lyfjadreifingarfyrirtæki í Búlgaríu, Higia AD, með fyrirvara um samþykki samkeppnisyfirvalda í Búlgaríu. Kaupverð er trúnaðarmál en kaupin eru fjármögnuð með langtímaláni. Þetta kemur fram í tilkynningu

Í tilkynningu frá Acatavis kemur fram að ávinningur með kaupunum á Higia:

- Actavis fær beinan aðgang að góðu dreifingarneti Higia sem nær til meira en 2.000 apóteka í Búlgaríu og Higia er með mjög sterka markaðshlutdeild í sölu til apóteka og sjúkrastofnana.

- Áætluð velta Higia á árinu 2005 er yfir 85 milljónir evra (um 6,6 milljarðar króna), sem mun styðja vel við tekjuvöxt Actavis á markaðnum, en á fyrri helmingi ársins 2005 námu tekjur af sölu í Búlgaríu um 12% af vörusölu samstæðunnar (um 2 milljarðar króna).

- Með góðu vöruúrvali og hágæða verksmiðjum Actavis verður staða félaganna á markaðnum sterk og góð tækifæri til áframhaldandi vaxtar.

Búist er við að áhrif kaupanna verði óveruleg á árinu 2005 en gert er ráð fyrir að félagið komi inn í samstæðuna á seinni hluta fjórða ársfjórðungs. Á árinu 2006 er búist við að tekjur Higia verði á bilinu 90-100 milljónir evra (7-7,7 milljarðar króna). Útgefið framlegðarmarkmið samstæðunnar á árinu 2006 er 27% en þar sem Higia hefur talsvert lægra framlegðarstig en Actavis er búist við að meðaltalsframlegð samstæðunnar á árinu 2006 verði um 25%.

?Búlgaría er einn af okkar lykilmörkuðum og stefna okkar er að styrkja okkur þar enn frekar. Með kaupunum fær Actavis beinan aðgang að um 2.000 apótekum, sem mun síðan styðja enn frekar við áframhaldandi vöxt félagsins. Kaupin á Higia eru mikilvægt skref fyrir Actavis í Búlgaríu og gerir félaginu kleift að stýra stærri hluta virðiskeðjunnar sem mun styðja okkar tekjuvöxt á markaðnum til framtíðar," segir Róbert Wessman, forstjóri Actavis Group, um kaupin.

Um Higia: Higia var stofnað árið 1995 í Búlgaríu og sérhæfir sig í dreifingu lyfja til apóteka og sjúkrastofnana. Félagið hefur góða markaðsstöðu og selur til yfir 2.000 apóteka og býður upp á fjölbreytt vöruúrval. Hjá Higia starfa yfir 500 starfsmenn og tekjur félagsins á árinu 2004 voru um 83,8 milljónir evra (6,5 milljarðar króna).

Um Actavis: Actavis var stofnað árið 1956. Actavis er alþjóðlegt lyfjafyrirtæki sem sérhæfir sig í þróun, framleiðslu og sölu samheitalyfja. Samstæðan hefur einnig sterka stöðu sem áreiðanlegur seljandi lyfjahugvits. Höfuðstöðvar félagsins eru á Íslandi en starfsemi félagsins nær til 28 landa og starfsmenn þess eru um 7.000 talsins. Actavis starfrækir lyfjaþróun og framleiðslu í Búlgaríu, Tyrklandi, á Möltu, Íslandi og í Serbíu. Actavis starfrækir yfirgripsmikið sölunet um heim allan. Félagið hefur byggt upp sterka stöðu á markaði í Evrópu og leitar stöðugt að nýjum markaðstækifærum. Lyfjahugvit Actavis hefur gert félaginu og viðskiptavinum þess kleift að vera fyrstir á markað með ný samheitalyf þegar einkaleyfi frumlyfjanna renna út.