Gengið hefur verið frá samningi um kaup Actavis Group á danska lyfjafyrirtækinu Ophtha. Ophtha, sem sérhæfir sig í framleiðslu augnlyfja, er fjölskyldufyrirtæki með aðsetur í Kaupmannahöfn og var stofnað árið 1998. Kaupverð er ekki gefið upp en gert er ráð fyrir að kaupin hafi engin áhrif á afkomu Actavis á árinu 2005.

Ophtha A/S selur margar tegundir augnlyfja í Danmörku og Noregi. Fyrirtækið er með 10 markaðsleyfi í Danmörku og fimm í Noregi. Þá selur það lyf til Svíþjóðar og Eistlands. Starfsmenn Ophtha eru fjórir.
?Actavis hefur verið að byggja upp sölu- og markaðskerfi sitt fyrir eigin vörur með kaupum á fyrirtækjum í Mið- og Austur-Evrópu. Kaupin á Ophtha eru í samræmi við þá stefnu okkar að efla dreifingu á eigin vörum í Norður-Evrópu,? segir Róbert Wessman, forstjóri Actavis Group, um kaupin á Ophtha í tilkynningu frá félaginu.

Actavis rekur sölu- og markaðsskrifstofu í Hørsholm í Danmörku sem sinnir markaðnum þar í landi og einnig skrifstofu sem samhæfir sölu- og markaðsmál í Norður-Evrópu. Actavis hefur 39 markaðsleyfi í Danmörku og 15 í Noregi.