Actavis hefur tilkynnt um kaup fyrirtækisins á írska lyfjafyrirtækinu Warner Chilcott fyrir um 8,5 milljarða bandaríkjadollara. Tilkynnt var um þetta í dag en áður höfðu fyrirtækin tilkynnt um mögulegan samruna. Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki eftirlitsaðila.

Hluti af samningnum felst í því að 5 milljarðar í hlutabréfum Actavis fara til hluthafa Warner Chilcott. Warner Chilcott er með verksmiðjur í Puerto Rico, Norður-Írlandi og í Þýskalandi. Sameinað fyrirtæki verður með sölutekjur upp á um 11 milljarða dollara á ári.

Þess má geta að eftir yfirtöku Watson Pharmaceuticals á Actavis, sem síðar ákvað að halda nafninu Actavis yfir sameinað fyrirtæki, þá er Björgólfur Thor Björgólfsson, sjötti stærsti eigandi Actavis. Hann á um fimm milljónir hluta í gegnum Novator sem er virði um 70 milljarða íslenskra króna.