Actavis hefur keypt íslenska lyfjaþróunarfyrirtækið Lyfjaþróun hf., sem sérhæfir sig í þróun nefúðalyfja. Seljandi er Atorka. Með kaupunum öðlast Actavis þekkingu á þróun á nýjum lyfjaformum sem félagið býr ekki yfir í dag segir í frétt á heimasíðu Actavis. Kaupin voru ekki tilkynnt í Kauphöllina.

Þar kemur fram að kaupin falla vel að stefnu Actavis, sem leggur aukna áherslu á lyf sem erfið eru í þróun. Kaupverðið er ekki gefið upp.


Í fréttinni kemur fram að á undanförnum árum hefur notkun nefúðalyfja aukist mikið, m.a. í formi hormóna og stera. Búist er við að heimsmarkaður fyrir nefúðalyf vaxi um 11% á árinu 2007 og að heildarsala verði um 6 milljarðar bandaríkjadala. Þá er fyrirsjáanlegur góður vöxtur á næstu árum, þar sem fjöldi einkaleyfa mun renna út.

Í framtíðinni mun Actavis leitast við að skrá lyf Lyfjaþróunar á helstu markaði samstæðunnar og nýta þannig öflugt sölunet sitt um allan heim.

Lyfjaþróun sérhæfir sig í þróun á nýjum nefúðalyfjum og hefur fjögur verkefni í þróun. Félagið var stofnað 1991. Hjá því starfa 13 manns. Búist er við að fyrstu lyfin komi á markað á árinu 2010, en félagið hefur ekki selt lyf á Íslandi. Þóra Björg Magnúsdóttir er framkvæmdastjóri félagsins.


Sigurður Óli Ólafsson, aðstoðarforstjóri Actavis um kaupin segir um kaupin í frétt félagsins: ?Með kaupunum erum við að efla enn frekar þróunarstarfið og lyfjaúrvalið hjá okkur á næstu árum. Við munum samþætta rekstur Lyfjaþróunar við okkar þróunarstarf og nýta vel sölunet Actavis samstæðunnar til að koma þessum lyfjum á markað á næstu árum. Auk þess að styðja núverandi starfsemi Lyfjaþróunar í rannsóknum á sviði frásognshvata, munum við vinna að þróun samheitalyfja fyrir nef.?