Actavis hefur keypt lyfið Kadian® af King Pharmaceuticals fyrir að hámarki 127,5 milljónir Bandaríkjadala (um 15,4 milljarða íslenskra króna segir í tilkynningu.

Endanlegt kaupverð ræðst af sölu lyfsins til 30. júní 2010. Kadian® er forðalyf sem inniheldur morfín og er notað við krónískum verkjum.

Ekki er fyrirhugað að setja lyfið á markað í öðrum löndum.   "Kaupin á Kadian eru í samræmi við þá stefnu okkar að auka hlut Actavis í sölu og þróun forðalyfja," segir Sigurður Óli Ólafsson, forstjóri Actavis, í tilkynningu.  "Kadian hefur góða markaðshlutdeild í Bandaríkjunum. Actavis fór inn á forðalyfjamarkaðinn í Bandaríkjunum með kaupunum á samheitalyfjasviði Alpharma árið 2005 og jók verulega við afkastagetuna á þessu sviði með kaupunum á Abrika í Florida fyrir tveimur árum. Sem fyrr teljum við vera góð vaxtartækifæri fyrir Actavis á sviði forðalyfja."   Kadian® var upphaflega þróað í Elizabeth í New Jersey, þar sem Actavis hefur framleitt lyfið síðan félagið keypti verksmiðjuna með samheitalyfjahluta Alpharma árið 2005.   Kadian® seldist fyrir um USD239M (28,9 milljarða króna) á ári, miðað við júní 2008, skv. tölum frá IMS health data.