Actavis hefur keypt 51% hlut í rússneska lyfjafyrirtækinu ZiO Zdorovje. Í tilkynningu frá fyrirtækinu kemur fram að kaupverðið sé 47 milljónir evra (4,2 milljarðar króna). Þar af verður 23 milljónum evra (2,1 milljörðum króna) varið til að stækka glæsilega verksmiðju ZiO Zdorovje og þannig auka framleiðslugetuna enn frekar. Núverandi eigendur ZiO Zdorovje munu eiga 49% í félaginu.

Kaupin eru fjármögnuð með lánum en í yfirlýsingu ´segir Róbert Westmann forstjóri Actavis að ZiO Zdorovje sé "mjög vel þekkt félag í Rússlandi fyrir að reka eina bestu lyfjaverksmiðju þar í landi. Árangur félagsins hefur verið einstakur á síðustu árum og teljum við mikilvægt að tryggja að núverandi eigendur félagsins taki áfram þátt í rekstri þess. Kaupin eru mikilvægt skref í frekari vexti okkar á markaðnum og gera okkur kleift að taka þátt í útboðum til sjúkrastofnanna á næsta ári.?

Í tilkynningur frá Actavis segir að markaður í Rússlandi sé meðal þeirra samheitalyfjamarkaða sem vaxa einna hraðast í heiminum og er reiknað með 15-17% árlegum vexti (skv. IMS Health) á markaðnum á næstu fimm árum. Rússland er sjöundi stærsti markaður Actavis og nema tekjur af svæðinu tæplega 4% af heildartekjum samstæðunnar. Með kaupunum styrkir Actavis enn frekar stöðu sína á markaðnum en félagið er nú þegar í hópi 10 stærstu samheitalyfjafyrirtækja í Rússlandi. Þá skapast tækifæri til þess að flytja framleiðslu ákveðinna lyfja til Rússlands en til að geta tekið þátt í útboðum sjúkrastofnana í Rússlandi á næsta ári er mikilvægt að hafa framleiðslueiningu þar í landi.

Um ZiO Zdorovje

Starfsemi félagsins er í borginni Podolsk (um 20 km frá Moskvu) og eru starfsmenn um 140. Félagið var stofnað árið 2001 og sérhæfir sig í framleiðslu og markaðssetningu samheitalyfja. Verksmiðja félagsins hefur framleiðslugetu upp á tvo milljarða taflna og hylkja, auk 20 milljóna skammtapoka á ári. Verksmiðjan hefur hlotið gæðavottun lyfjayfirvalda í Evrópu (European GMP) og er meðal fyrstu rússnesku lyfjaframleiðenda til að fá ISO 9001:2000 gæðastjórnunarvottun. Í verksmiðjunni eru í dag framleiddar 12 tegundir samheitalyfja, og er salan að mestu til aðila innan rússneska heilbrigðiskerfisins en Actavis hefur fyrir kaupin ekki haft mikla sölu til þeirra aðila.

Búist er við að tekjur félagsins á árinu 2006 nemi um 21 milljón evra (1,9 milljörðum króna). Á árinu 2007 er áætlað að tekjurnar verði um 31 milljón evra (2,8 milljarðar króna), og að EBITDA framlegð verði í samræmi við framlegðarstig samstæðunnar.