Actavis Group hf. undirritaði í dag samning um kaup á ungverska lyfjafyrirtækinu Kéri Pharma. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu. Kaupverðið er ekki gefið upp.

Róbert Wessman, forstjóri Actavis, segir kaupin í samræmi við stefnu félagsins um uppbyggingu þess í mið og austur Evrópu.

?Með kaupunum erum við komin með beinan aðgang að ungverska markaðnum, þar sem félagið er þegar með 12 markaðsleyfi fyrir lyf sem fyrirtækið getur nú þegar sett á markað í gegnum Kéri, en í því sjáum við ákveðna samlegð og tækifæri,"segir Róbert.

Kéri Pharma var stofnað árið 1991 og sérhæfir sig í þróun, sölu og markaðssetningu á samheitalyfjum í mið og austur Evrópu. Stærsti markaður fyrirtækisins er í Ungverjalandi en aðrir markaðir eru Pólland, Slóvenía, Slóvakía, Tékkland og Eystrasaltsríkin.

Um 80 manns starfa hjá fyrirtækinu sem hefur höfuðstöðvar í Debrecen. Kéri einbeitir sér einkum að sölu geð-, hjarta- og gigtarlyfja. Fyrirtækið hefur yfir að ráða góðu úrvali lyfja og hefur yfir 20 lyf á markaði, til viðbótar við 23 lyf í skráningum og þróun. Kéri hefur yfir að ráða öflugri þróunareiningu en þeir kaupa framleiðslu lyfja af þriðja aðila.

Kéri mun setja á markað tvö lyf á árinu frá Actavis í gegnum eitt af markaðssviðum félagsins, Sölu til þriðja aðila (Medis). Lyf Kéri uppfylla gæðastaðla Evrópusambandsins og sér Actavis tækifæra í að markaðssetja lyf þeirra á núverandi markaði félagsins.