Samheitalyfjafyrirtækið Actavis hefur keypt erlend fyrirtæki fyrir 110 milljarða króna á síðustu tveimur árum og ef félaginu tekst að taka yfir króatíska keppinautinn Pliva mun upphæðin nema 285 milljörðum króna. Miðað er við að verðmæti Pliva samsvari kauptilboði bandaríska fyrirtækisins Barr Pharmaceuticals í fyrirtækið.

Reiknað er með því að Actavis muni birta endurskoðað tilboð sitt í króatíska lyfjafyrirtækið Pliva í dag, en Barr hækkaði nýverið boð sitt í 820 kúnur á hlut, sem nemur um 175 milljörðum króna. Síðasta tilbboð Actavis hljóðaði upp á 795 kúnur á hlut, en sérfræðingar reikna með að fyrirtækin séu reiðubúin að borga allt að 850 kúnur á hlut.

Róbert Wessman, forstjóri Actavis, hefur áður sagt að hann sjái fyrir aukna samkeppni á samheitalyfjamarkaði og að meira verði um samruna í geiranum á næstunni. Actavis hefur þó langt því frá setið auðum höndum fram að þessu, síðastliðin sjö ár hefur fyrirtækið fjárfest grimmt í lyfjafyrirtækjum um allan heim og er það í takt við ætlanir þess að verða eitt af fimm stærstu fyrirtækjunum heims á samheitalyfjamarkaði. Á síðustu tveimur árum hefur þó verið mesta vaxtartímabil Actavis og fylgir hér samantekt á yfirtökum Actavis frá byrjun árs 2004.

Actavis keypti tvö bandarísk samheitalyfjafyrirtæki í fyrra -- Amide og samheitalyfjaeiningu Alpharma. Lyfja- og matvælaeftirlit Bandaríkjanna (FDA) hefur nú sent Actavis viðvörun í kjölfar skoðunar í lyfjaverksmiðju fyrirtækisins í New Jersey, segir í tilkynningu. Actavis segir að FDA telji að annmarkar hafi verið á tilkynningarskyldu vegna lyfja fyrirtækisins á samkeppnismarkaði sem framleidd eru í verksmiðjunni. Fyrirtækið segir að ný lyf muni væntanlega ekki koma frá verksmiðjunni fyrr en leyst verður úr málinu. Actavis gerir ekki ráð fyrir því að þetta muni hafa áhrif á afkomu fyrirtækisins á árinu.