Actavis hefur tekið í notkun nýtt merki í framhaldi af kaupum bandaríska samheitalyfjafyrirtækisins Watson á Actavis og samruna fyrirtækjanna. Nýja merkið byggist á gormlaga DNA-keðju. Úr keðjunni má sömuleiðis lesa bókstafina W fyrir Watson og A fyrir Actavis.

Watson keypti Actavis í apríl í fyrra fyrir samtals 4,25 milljarða evra, jafnvirði um 700 milljarða króna.

Fram kemur í tilkynningu frá Actavis að farið var í þessa breytingu að vel ígrunduðu máli og af virðingu fyrir sögu og hefðum hvors fyrirtækis, án þess þó að missa sjónar á mikilvægi þess að nota eitt merki á heimsvísu. Lagt var í mikla vinnu og ítarlega úttekt á mögulegum nöfnum og voru skoðuð yfir 2.000 önnur möguleg heiti. En eftir því sem á leið, varð ljóst að Actavis nafnið skaraði fram úr og hægt er að nota vandræðalaust um allan heim. Slíkt var ekki mögulegt með Watson.

Einnig var gerð ítarleg úttekt á samkeppnisumhverfi fyrirtækisins og leitast við að koma fram með litaþema sem skæri sig úr meðal samkeppnisaðila Actavis á samheitalyfjamarkaðinum. Liturinn sem varð fyrir valinu endurspeglar vöxt, sem er grundvallarþáttur fyrir félagið og framtíð þess. Þessi náttúrulegi og kraftmikli litur endurspeglar um leið ábyrgð okkar í umhverfismálum sem við höfum skuldbundið okkur til að sýna.