Actavis Group leitar nú að samstarfsfyrirtæki á nýmörkuðum til þess að gera samheitaútgáfur af flóknum líftæknilyfjum á borð við krabbameinslyfið Avastin sem svissneski lyfjarisinn Roche hefur selt mjög vel á undanförnum árum. Bloomberg hefur eftir Claudio Albrecht, forstjóra Actavis, að fyrirtækið sé að leita samstarfsaðila sem hefur náð langt í þróun líftæknilyfja og sýnt fram á að þau séu bæði áhrifarík og örugg. Albrecht segir fyrirtækið nú þegar eiga í viðræðum við nokkur fyrirtæki.

Hann segir stóran hluta þeirra lyfja sem á næsta áratugi muni missa vernd einkaleyfis vera líffræðileg lyf sem byggja á lifandi frumum og að samheitalyfjaframleiðendur sem hingað til hafi lagt áherslu á framleiðslu ódýrra efnafræðilegra lyfja þurfi að fjárfesta meiru í rannsóknum og þróun og markaðssetningu á líffræðilegum lyfjum til lækna.

Albrecht segir að Actavis gæti framleitt samheitaútgáfur af líffræðilegum lyfjum og selt á nýmörkuðum þar sem ekki eru gerðar jafnmiklar kröfur um klínískar prófanir og í Evrópu og Bandaríkjunum. Sala á lyfjunum gæti síðan fjármagnað prófanir í Evrópu og Bandaríkjunum. 5% af 1,7 milljarða evra tekjum félagsins á síðasta ári komu frá nýmörkuðum.

Actavis gæti jafnvel farið þá leið að taka yfir fyrirtæki sem náð hefur langt í þróun slíkra lyfja og segir Albrecht fyrirtækið geta fjármagnað yfirtöku á bilinu 200 milljónir evra til 1 milljarðs evra.