Actavis Group hefur hafið markaðssetningu á þunglyndislyfinu Sertraline, segir í tilkynningu frá félaginu. Þar segir að markaðssetningin sé sú umsvifamesta á þessu ári.

Lyfið, sem selt er í hylkjum eða töfluformi, er framleitt í verksmiðjum Actavis á Íslandi og á Möltu. Talið er að um 70 milljónir hylkja og taflna verði settar á markað í fyrstu atrennu.

Hluti lyfins verður seldur undir merkjum Actavis en einnig verður lyfið markaðsett í gegnum dreifingaraðilann Medis. Lyfið verður selt í 14 löndum þar sem einkaleyfi á framleiðslu þess er runnið út. Lyfið hefur verið selt á Spáni síðan 2003 og í Mið- og Austur-Evrópu síðan 2004.