Actavis hefur sett á markað fimm ný samheitalyf í Bandaríkjunum, sem munu styðja vel við vöxt félagsins á markaðnum segir í tilkynningu félagsins.

Bandaríkjamarkaður er í dag stærsti lyfjamarkaður heims og samsvarar sala þar um helming af allri neyslu lyfja í heiminum. Þá er markaðurinn stærsti markaður Actavis og búist er við að tekjur frá markaðnum nemi allt að þriðjung af heildartekjum samstæðunnar á árinu 2006.

Lyfin eru:

Dantrolene: Samheitalyf frumlyfsins Dantrium, sem Procter & Gamble framleiðir. Lyfið er notað við stífbeygjukrampa og illkynja ofurhita og verður framleitt í 25, 50 og 100mg hylkjum.

Isradipine: Samheitalyf frumlyfsins DynaCirc, sem framleitt er af Reliant Pharmaceutical. Lyfið er notað gegn of háum blóðþrýstingi og framleitt í 2,5 og 5mg hylkjum.

Amantadine: Samheitalyf frumlyfsins Symmetrel, sem framleitt er af Endo Pharmaceutical. Það er notað gegn einkennum inflúensu A vírussins og ávísað við Parkinson sjúkdómnum. Amantadine er eingöngu framleitt í 100mg hylkjum.

Dipyridamole: Samheitalyf frumlyfsins Persantine frá fyrirtækinu Boehringer Ingelheim. Dipyridamole er blóðþynningarlyf og notað til að draga úr líkum á að blóðkekkir myndist í kjölfar aðgerðar á hjartalokum. Lyfið er í töfluformi og framleitt í styrkleikunum 25, 50 og 75mg.

Spironolactone: Samheitalyf frumlyfsins Aldactone, frá lyfjafyrirtækinu Pfizer. Spironolactone er m.a. notað við aldósterónheilkenni, bjúg og háþrýstingi og verður framleitt í þremur styrkleikum, 25, 50 og 100mg töflum.

Sigurður Óli Ólafsson, framkvæmdastjóri Norður-Ameríkusviðs, segir að með tilkomu þessara nýju lyfja aukist enn lyfjaúrval Actavis, sem sé nú með því besta á markaðnum. ?Þetta sýnir jafnframt hversu vel okkur er að takast að setja á markað lyf úr okkar eigin þróunarstarfi en stöðug endurnýjun á lyfjasafni okkar er forsenda góða árangurs á markaðnum. Starfsemin hefur gengið vel á fyrri hluta ársins og við reiknum með að setja alls 15 ný samheitalyf á markað í Bandaríkjunum á árinu 2006, sem mun styðja vel við vöxt Actavis á þessum mikilvæga markaði. Það er áfram ætlan okkar að sækja um að minnsta kosti 30 ný markaðsleyfi (ANDAs) í Bandaríkjunum á árinu.?