Stjórn Pliva mælti með tilboði Barr sem var lægra en Actavis bauð, að sögn greiningardeildar Glitnis. Barr svarar því með hækka tilboð sitt um 2,7% miðað við það sem Actavis býður.

?Fyrr í vikunni var tilkynnt að stjórn króatíska samheitalyfjafyrirtækisins Pliva styddi kauptilboð bandaríska lyfjafyrirtækisins Barr Pharmaceuticals og tæki það því fram yfir tilboð Actavis.

Barr bauð 705 HRK á hlut auk 12 HRK arðgreiðslu vegna ársins 2005, samtals 717 HRK. Ekki kom hins vegar fram hvað Actavis bauð en vitað var að Actavis hafði boðið 570 HRK í mars og svo hækkað tilboð sitt í 630 HRK í apríl. Nú er komið fram að Actavis hafði enn og aftur hækkað tilboð sitt á mánudaginn í samtals 735 HRK (þ.e. að meðtalinni 12 HRK arðgreiðslu)," segir greiningardeild Glitnis.
Stjórnendur Pliva hunsuðu betra tilboðið

Stjórnendur Actavis hafa vakið athygli á því að stjórn Pliva mælti með lægra tilboði og hefur að auki fundið til aðrar ástæður sem geri tilboð þeirra fýsilegra en Barr.

?Þannig er t.d. fyrirvari á kauptilboði Barr um samþykki samkeppnisyfirvalda Þýskalands og Bandaríkjanna en ekkert slíkt skilyrði í tilboði Actavis. Barr setur einnig sem skilyrði að það eignist yfir 50% í Pliva en það kann að reynast erfitt eins og mál hafa þróast núna," segir greiningardeildin.
Ástæðan er sú að Actavis ræður yfir, með beinum eða óbeinum hætti, um 20% af hlutafé Pliva.

?Einnig samrýmist það ekki króatískum lögum að ríkið þar í landi taki þátt í útboðinu en það á um 20% í Pliva. Möguleikar Barr fara því þverrandi en færi samt svo að Barr tækist yfirtakan þá gæti Actavis verið því erfiður meðeigandi sem gæti mögulega hindrað mikilvægar ákvarðanir," segir greiningardeildin.

Barr hækkar sitt tilboð

Barr deyr þó ekki ráðalaust og hefur hækkað tilboð sitt í samtals 755 HRK en það er 2,7% hærra en tilboð Actavis, sem er 735 HRK. ?Stjórnendur Actavis eru að skoða stöðuna en líklegt er að þeir láti enn reyna á þanþol Barr með því að hækka tilboðið á ný og jafnvel halda áfram kaupum á hlutum í Pliva," segir greiningardeildin.

Actavis teygir sig langt

Tilboð Actavis hljóðar upp á 735 HKR og er það 17% hærra en hækkað tilboð þess frá í apríl.
?Grundvöllur þess er áreiðanleikakönnunin sem leiddi í ljós meiri samlegðaráhrif en búist var við áður. Stjórnendur Actavis reikna með að samanlagðar tekjur árið 2006 verði 2,2 milljarðar evra og EBITDA framlegð 23%. Samlegðaráhrifin verði 50 milljarðar evra á árinu 2007 og 100 milljarða árið 2008 og árið eftir það," segir greiningardeildin.

Greiningardeildin segir verðkennitölur miðað við kauptilboð Actavis hafa hækkað verulega frá því að félagið lagði fram tilboðið í apríl. ?Miðað við 735 HRK er EV/EBITDA 13,6 en var 10,3 áður. Síðustu yfirtökur Actavis (Sindan, Alpharma, Amide) hafa verið á EV/EBITDA 7,6-9,2 en voru einstaklega hagstæðar og verðkennitölurnar talsvert undir meðaltali undanfarinna missera við sambærilegar yfirtökur," segir greiningardeildin.

Sennilega mun Actavis þurfa að hækka tilboð sitt enn meira, greiningardeildin nefnir 770-880 HRK í því samhengi. ?Mikið er í húfi enda mun Actavis verða þriðja stærsta samheitalyfjafyrirtæki í heimi lukkist yfirtakan."