Actavis Group hefur í gegnum dótturfélag sitt, Amide Pharmaceutical Inc. í Bandaríkjunum, fengið samþykki bandarísku Matvæla- og lyfjastofnunarinnar (FDA) fyrir markaðsleyfi á lyfinu Mirtazapine í töfluformi í styrkleikunum 15 mg, 30 mg og 45 mg.

Í frétt á heimasíðu Actavis kemur fram að Mirtazapine er samheitalyf við frumlyfið Organon's Remeron SolTab® töflur og er notað við meðferð á þunglyndi. Amide er eitt af fyrstu fyrirtækjum til að sækja um markaðsleyfi samkvæmt IV kafla leyfisveitingarinnar, og hefur verið veitt 180 daga einkaleyfi fyrir markaðssetningu á lyfinu í 45 mg styrkleika ásamt einu öðru fyrirtæki. Árleg sala á frumlyfinu í Bandaríkjunum er um 100 milljónir dala. Amide mun framleiða, markaðssetja, selja og dreifa Mirtazapine töflum í Bandaríkjunum og mun á næstunni hefja sölu á lyfinu í öllum þremur styrkleikaflokkum.

Amide Pharmaceutical Inc. er staðsett í Little Falls í New Jersey og þróar, framleiðir og markaðssetur gæða samheitalyf. Actavis keypti fyrirtækið í maí 2005.

Búist er við að lyfið hafi óveruleg áhrif á afkomu Actavis samstæðunnar.