Samkvæmt frétt bandaríska dagblaðsins Wall Street Journal vill þýska efna- og lyfjafyrirtækið Merck KGaA selja samheitalyfjaframleiðslu sína og einbeita sér frekar að framleiðslu frumlyfja og efnaframleiðslu. Fullyrt er að Merck vilji fá á bilinu fjóra til 5.5 milljarða evra eða um 500 milljarða íslenskra króna. Blaðið nefnir Actavis í umfjöllun sinni sem einn af hugsanlegum kaupendum á þessum hluta Merck KGaA. Talsmaður Merck var ekki tilbúinn að staðfesta frétt blaðsins á þeirri forsendu að fyrirtækið svaraði ekki orðrómi.

Samheitalyfjaframleiðsla Merck KGaA hefur um fjögurra prósenta markaðshlutdeild í heiminum og nam sala á slíkum lyfjum um 1.8 milljörðum evra á síðasta ári. Sökum sterkrar markaðsstöðu í Evrópu leiða blaðamenn Wall Street Journal líkur að því að bandarísk eða indversk fyrirtæki sem hafa ekki mikil umsvif í álfunni kynnu að hafa áhuga á kaupum.

Einnig er Actavis nefnt í því samhengi þar sem að stjórnendur þess hafi verið í miklum fjárfestingum undanfarið en hafi orðið að láta í minni pokann fyrir bandaríska lyfjafyrirtækinu Barr í baráttunni um króatíska samheitalyfjafyrirtækið Pliva.

Fyrirtækið var selt á 175 milljarða króna. Mikil samþjöppun hefur verið hjá samheitalyfjaframleiðendum að undanförnu enda er samkeppnin gríðarlega hörð. Þar sem að framleiðsla og þróun á frumlyfjum er í eðli sínu ólík telja flestir að erfitt fyrirtæki að standa í framleiðslu í báðum tegundum eins Merck gerir.

Í fyrra keypti Merck svissneska líftæknifyrirtækið Serano og var talið að með þeim kaupum myndi fyrirtækið styrkja stöðu sína við þróun frumlyfja. Í frétt Wall Street Journal er leitt að því líkum að ástæða þess að Merck vilja selja samheitalyfjaframleiðlu sé sú að stjórendur þess vilja styrkja stöðu sína gegn öðrum fyrirtækjum á frumheitalyfsmarkaðnum.

Halldór Kristmansson, talsmaður Actavis, neitaði að tjá sig um hvort að félagið hafi áhuga á ráðast í kaup á samheitalyfjaframleiðslu Merck, kynni orðrómurinn að sannur. Fram hefur komið að fjárfestingageta Actavis sé um 3.5 milljarðar evra.