Króatíski samheitalyfjaframleiðandinn Pliva gæti tilkynnt hvaða fyrirtæki það hefur valið til að sameinast á miðvikudaginn í næstu viku, samkvæmt heimildum Reuters-fréttastofunnar.

Ráðgjafi Pliva, Deutsche Bank, er talinn hafa farið fram á að skilyrðislausum kauptilboðum yrði skilað í dag, en Actavis hefur gert óformlegt kauptilboð í Pliva að virði um tveir milljarðar dollara, eða um 150 milljarðar króna.

Bandaríska lyfjafyrirtækið hefur einnig gert óformlegt tilboð í Pliva, samkvæmt heimildum Financial Times, að virði 2,1 milljarðar dollara.

Suður-afríska fyrirtækið Aspen hefur hætt við að gera formlegt tilboð, en talið er að pólska lyfjafyrirtækið Polpharma í samvinnu við fjárfestingasjóðinn Permira sé enn með í leiknum. Hins vegar telja sérfræðingar litlar líkur á því að Polpharma og Permira vilji bjóða eins hátt í í Pliva og Actavis og Barr.

Gengi hlutabréfa Pliva náði sögulegu hámarki í kauphöllinni í Zagreb í dag og hækkaði um 2,4% í morgun í 629,96 króatíska kuna (HKR) hluturinn.

Actavis og Barr eru að bregðast við væntanlegeri samþjöppun á samheitalyfjamarkaði, segja sérfræðingar, en margir telja stöðu Actavis sterkari og samlegðaráhrif meiri. Actavis er nú þegar með starfsemi í Austur-Evrópu, en Barr ætlar sér að ná fótfestu í Evrópu með kaupunum.