Actavis hefur opnað skrifstofu í Tirana, höfuðborg Albaníu. Samkvæmt frétt frá Factiva fréttaþjónustunni eru áform um að skrifstofan þar sinni nálægu landssvæði. Þar er einnig haft eftir Vladimir Afenliev, þróunarstjóra Actavis í Mið- og Austur-Evrópu, að félagið sé að undirbúa skráningu og sölu ríflega 250 nýrra lyfja á þessu svæði.

"Verð á samheitalyfjum er til þess að gera sanngjarnt þannig að almenningur ætti að geta keypt slík lyf á viðráðanlegu verði," sagði Afenliev í samtali við Factiva og átti þá sérstaklega við Makedóníu en félagið hefur nýlega vakið athygli fyrir gjafir sínar til mannúðarmála þar.

Félagið á í samningaviðræðum við aðila í Makedóníu um að sinna lyfjaþörf þeirra en samkvæmt frétt Factiva hefur félagið uppi áform um að auka sölu sína verulega í Balkanlöndunum.