Einkavæðingarnefnd Rúmeníu, sem hefur umsjón með sölu á ríkisrekna lyfjafyrirtækinu Antibiotice Iasi, hefur gefið hugsanlegum kaupendum frest til 1. nóvember til að skila inn yfirlýsingum um áhuga á að gera kauptilboð (e. letter of interest) í félagið.

Getgátur eru um að Actavis, sem nýlega keypti rúmenska lyfjafyrirtækið Sindan Pharma fyrir 147,5 milljónir evra (12,5 milljarða króna) og gerði tilraun til að kaupa króatíska samheitalyfjafyrirtækið Pliva, hafi áhuga á að skoða hugsanleg kaup á Antibiotice Iasi.

Rúmenskir fjölmiðlar hafa orðað breska fyrirtækið Ozone Laboratories og kandadíska félagið ACIC við Antibiotice Iasi.

Hreinn hagnaður Antibiotice Iasi á fyrstu sex mánuðum ársins 2006 jókst um 20% í 5,6 milljónir Bandaríkjadali. Fyrirtækið er skráð í kauphöllina í Rúmeníu og markaðsvirði félagsins er í kringum 240 milljónir Bandaríkjadala, sem samsvarar tæplega 16,3 milljörðum króna.