Actavis plc, móðurfélag Actavis á Íslandi hefur nú formlega tekið upp nafnið Allergan plc og hefjast viðskipti undir nýju auðkenni, AGN, í kauphöllinni í New York í dag. Actavis keypti Allergan í mars sl og var nafnabreytingin samþykkt í byrjun júní. Sameinað fyrirtæki er nú eitt af 10 stærstu lyfjafyrirtækjum heims með um 30.000 starfsmenn í 100 löndum, með áherslu á frumlyf, samheitalyf og líftæknilyf.

Fram kemur í tilkynningu að starfsemin á Íslandi, þar sem starfa um 700 manns, verður óbreytt undir nafni og merki Actavis enn um sinn. Hins vegar er nú þegar hafin vinna við að sameina alla starfsemi fyrirtækisins alþjóðlega undir Allergan nafninu að undanskyldu samheitalyfjasviði fyrirtækisins í Bandaríkjunum og Kanada sem mun starfa óbreytt undir nafni Actavis.