Samheitalyfjafyrirtækið Actavis hefur ákveðið að uppfæra framtíðarhorfur fyrirtækisins fyrir árið 2007 og er gert ráð fyrir að hlutafall hagnaðar fyrir afskriftir fjármagnsliði og skatta (EBITDA-framlegð) aukist í 21-22%, segir í fréttatilkynningu.

Samanburðartölur voru ekki fáanlegar og ástæður uppfæringarinnar komu ekki fram í tilkynningunni, en félagið hefur nýlega keypt bandarísku samheitalyfjafyrirtækin Amide fyrir um 500 milljónir Bandaríkjadali og samheitalyfjaeiningu Alpharma fyirir 810 milljónir Bandríkjadala. Actavis á einnig í yfirtökuviðræðum við króatíska félagið Pliva.

Stjórnendur félagsins vænta þess að heildartekjur ársins 2007 verði 1,6 milljarður evra (144 milljarðar króna), sem samsvarar yfir 10% undirliggjandi vexti frá árinu 2006

?Fyrir árið 2006 eru horfurnar í samræmi við það sem áður hefur verið tilkynnt og búist við áframhaldandi góðri afkomu og vexti á árinu. Heildartekjur ársins verði um 1,39 milljarðar evra, undirliggjandi tekjuvöxtur um 10% og EBITDA framlegð fyrir árið í heild sinni 20,5%," segir í tilkynningunni.

Actavis reiknar með að árstíðabundnar sveiflur hafi áhrif á niðurstöður þriðja ársfjórðungs og að bæði tekjur og EBITDA verði lægri en á þeim fjórða.