Viðræður eru sagðar í gangi sem snúa að yfirtöku Actavis á bandaríska lyfjafyrirtækinu Forest Laboratories. Miðað við verðmiðann sem nefndur hefur verið er Forest Laboratories sagt metið á um 25 milljarða dala, jafnvirði rúmra 2.800 milljarða íslenskra króna. Viðræðurnar eru sagðar á viðkvæmu stigi og gæti vel farið svo að ekkert verði úr yfirtökunni.

Fram kemur í umfjöllun MarketWatch að Forest Laboratories er tæplega helmingi minna en Actavis ef litið er til markaðsverðmætis. Markaðsverðmæti Actavis nam á föstudag í síðustu viku um 33,4 milljörðum dala en Forest Laboratories 19,3 milljörðum dala.

Forest Laboratories framleiðir lyf á nokkuð víðum grunni, allt frá geðlyfjum til lyfja við ýmsum hægðavandamálum, s.s. gegn harðlífi.