Actavis er einn aðalsamstarfsaðili sýningarinnar Pure Iceland eða Hreint Ísland sem opnuð var í Vísindasafninu (The Science Museum) í London 20. janúar og standa mun til 21. apríl næstkomandi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Sendiráð Íslands í London átti frumkvæði að sýningunni og hefur unnið að undirbúningi hennar í tvö og hálft ár.

Á sýningunni, sem þekur um eitt þúsund fermetra, er fjallað um einstakt náttúru- og veðurfar á Íslandi og hvernig Íslendingar nýta náttúruauðlindir sínar til hreinnar raforkuframleiðslu.

Áhersla er lögð á heildarupplifun sýningargesta með hjálp hljóðs og myndar en til umfjöllunar eru orkulindir, eldgos, jarðskjálftar, sviptingar í veðurfari, snjóflóð og fleiri hliðar íslensks náttúru- og veðurfars. Þá verður vetnisvæðingunni og möguleikum Íslendinga á því sviði gefinn sérstakur gaumur.

Samstarf vegna sýningarinnar fellur vel að þeirri stefnu fyrirtækisins að styðja við ýmis verkefni á sviði lista og menningar auk íþrótta og mannúðarmála, segir Guðbjörg Edda Eggertsdóttir, framkvæmdastjóri Sölu til þriðja aðila hjá Actavis.

Spúandi eldfjall og þátttaka leikfélagsins Vesturports er meðal þess sem mun vekja athygli gesta. Leikarar Vesturports munu flytja íslenskar sagnir og svara spurningum.

Geir H. Haarde utanríkisráðherra opnaði sýninguna formlega fimmtudagskvöldið 19. janúar og Magnús Magnússon, sjónvarpsmaður, var heiðursgestur.