Yfirlýsing króatíska samheitalyfja fyrirtækisins Pliva um að stjórn félagins hafi ákveðið að mæla með yfirtökutilboði bandaríska félagsins Barr Pharmaceuticals hefur litla þýðingu, segir Halldór Kristmannsson, talsmaður Actavis, í samtali við Viðskiptablaðið.

Stjórn Pliva tilkynnti í gær að hún mæli með tilboðinu, sem hljóðar upp á 743 króatískar kúnur á hlut, en óformlegt kauptilboð Actavis nemur 723 kúnum á hlut og liggur nú hjá fjármálaeftirliti Króatíu.

Halldór segir að stjórninni, sem áður hefur gefið til kynna að samruni við Barr sé fýsilegri kostur en að sameinast Actavis, hafi borið skylda til þess að taka afstöðu innan sjö daga frá því að fjármálaeftirlitið samþykkti tilboð Barr sem fullgilt.

Búist er við að formlegt kauptilboð Actavis í fyrirtækið verði samþykkt á næstunni og reiknað er með að fyrirtækið hækki tilboðið. Sérfræðingar hafa bent á að staða Actavis sé mun sterkari en Barr þar sem fyrirtækið hefur tryggt sér í kringum 20% hlut í Pliva. Stjórn króatíska félagsins mun einnig þurfa að taka afstöðu til kauptilboðs Actavis og eftir að það hefur verið samþykkt af króatíska fjármálaeftirlitinu hafa bæði fyrirækin 30 daga til að gera breytingar á tilboðum sínum.

Halldór segir að Actavis ætli sér ekki að borga yfirverð og að það komi til greina að að selja hlutinn ef Barr hækkar kauptilboð sitt umfram það sem Actavis er tilbúið að greiða fyrir Pliva. Samkvæmt heimildum Viðskitpablaðsins tryggði Actavis sér hlutinn í Pliva á í kringum 723 kúnur á hlut en gengi bréfanna í kauphöllinni í Zagreb hefur verið í kringum 780 kúnur á hlut síðustu daga.