Actavis Group hefur selt allt hlutafé sitt í króatíska lyfjafyrirtækinu PLIVA til Barr Pharmaceutical, en eignarhlutur félagsins og kaupréttarsamningar námu 20,8% af heildarhlutafé félagsins, segir í tilkynningu. Sala hlutarins var samkvæmt yfirtökutilboði Barr sem hljóðaði upp á 820 kúnur á hlut, sem hefur í dag verið staðfest.

Í tilkynningunni segir að hagnaður Actavis af sölu bréfanna mun að hluta til mæta þeim kostnaði sem félagið hefur borið af yfirtökuferlinu. Yfirtökuferlið, sem er það flóknasta sem Actavis hefur ráðist í, fól m.a. í sér ítarlega áreiðanleikakönnun, kostnað vegna bankatryggingar og umsóknarferli til samkeppnisyfirvalda í 14 löndum.

?Ákvörðun okkar um að selja hluti okkar í PLIVA er í samræmi við okkar fjárfestingastefnu. Við töldum ekki réttlætanlegt að greiða hærra verð fyrir félagið en við höfðum áður boðið og teljum það ekki lengur þjóna hagsmunum félagsins að halda hlut okkar í félaginu. Við munum halda áfram að styðja góða undirliggjandi starfsemi félagsins, ásamt því að leita annarra fjárfestingatækifæra með það markmið að skipa Actavis í hóp stærstu samheitalyfjafyrirtækja á öllum okkar lykilmörkuðum," segir Róbert Wessman, forstjóri Actavis Group.

Gjaldfærður kostnaður vegna verkefnisins nemur 25 milljónum evra. Kostnaðurinn verður að fullu gjaldfærður á þriðja ársfjórðungi en ekki á þeim fjórða eins og áður hafði verið gefið til kynna og verður hann bókaður undir fjármagnsliðum. Gjaldfærslan mun því ekki hafa áhrif á fjárhagsleg markmið félagsins fyrir árið 2006, sem eru 20-21%% EBITDA framlegð og 10% innri vöxtur.

Eins og áður hefur verið tilkynnt munu árstíðabundnar sveiflur hafi áhrif á niðurstöður þriðja ársfjórðungs og bæði tekjur og EBITDA framlegð verða lægri en á fyrri ársfjórðungum ársins.