Indverska lyfjafyrirtækið Glenmark Pharmaceuticals tilkynnti í morgun að félagið hefði gert samning við Actavis og pólska fyrirtækið Biovena um að yfirtaka sjö samheitalyf til dreifingar í Póllandi.

Dow Jones fréttaveitan greinir frá þessu en söluverð er ekki gefið upp.

Glenn Saldanha, forstjóri Glenmark Pharmaceuticals segir í tilkynningu frá félaginu að pólski markaðurinn lofi góðu og nú muni félagið hasla sér völl þar í landi og muni í framhaldinu leita leiða til dreifingar og sölu lyfja í A – Evrópu en félagið hefur þegar fengið rekstrarleyfi í Tékklandi og Slóvakíu og mun á þessu ári ganga frá rekstrarleyfi í Rúmeníu.

Þá kemur einnig fram að Glenmark Pharmaceuticals hafa þegar komið sér upp dreifingar- og sölufyrirtæki í Póllandi sem mun einbeita sér að markaði í A – Evrópu.   Glenmark Pharmaceuticals býst við að sala félagsins á lyfjum í Póllandi muni vera um 15 milljónir Bandaríkjadala fram til mars á næsta ári.