Actavis í Þýskalandi hefur undirritað samning við samband sjúkrasamlaga í Þýskalandi, VdAK / AEV, en skjólstæðingar sambandsins eru um 8.7 milljónir Þjóðverja að því er kemur fram í frétt félagsins.


Í samningnum mæla aðilar að sambandinu með því að þarlendir læknar ávísi þeim 42 lyfjum sem samkomulagið nær til, í þeim tilgangi að lækka kostnað í þýska heilbrigðiskerfinu.

Samningurinn, sem er til eins árs, nær til sjúkrasamlaganna, DAK, HEK, HMK, Hkk, GEK, HZK og KEH. Hann kemur í kjölfar samnings sem félagið gerði nýlega við stærsta sjúkrasamlag í Þýskalandi, Allgemeine Ortskrankenkassen (AOK).

Sigurður Óli Ólafsson, aðstoðarforstjóri segir um samninginn í tilkynningu félagsins: "Samkomulagið er góð viðurkenning fyrir starfsemi Actavis í Þýskalandi og ánægjulegt að sjá að við erum eina félagið sem sambandið ákveður að semja við vegna þessara lyfja. Við höfum hingað til ekki selt mikið til þessara aðila og væntum þess að sala lyfjanna geti verið ágæt viðbót við sölu okkar á markaðnum."