Actavis hefur ákveðið að styrkja hjálparstarfið í kjölfar jarðskjálftans á Haítí um meira en 270 milljónir króna, í formi fjárstyrkja og lyfja að því er segir í tilkynningu frá félaginu.   Lyfin eru send frá ýmsum löndum þar sem Actavis starfar, meðal annars Íslandi, Búlgaríu, Tyrklandi, Bretlandi og Bandaríkjunum. Hluti framlagsins er þegar kominn til viðtakenda. Þar á meðal er 10.000 dollara fjárstyrkur til bandaríska Rauða krossins og lyf frá Actavis í Bandaríkjunum, og meira en 600-þúsund töflur af samheitalyfjum sem Actavis á Íslandi sendi SOS barnaþorpunum. Lyfin voru send til Dóminíska lýðveldisins og þaðan landleiðina til Haítí, sem er á sömu eyju. Unnið er að flutningi lyfja frá fleiri löndum. Meðal lyfjanna sem fyrst voru send eru þau sem mest þörf er fyrir á hamfarasvæðunum, svo sem bólgueyðandi lyf og verkjalyf.   "Náttúruhamfarir sem þessar láta engan ósnortinn og Actavis ákvað þegar í kjölfar jarðskjálftans að leggja sitt af mörkum til að lina þjáningar bágstaddra á Haítí. Fyrstu viðbrögð okkar voru í formi fjárstyrkja. Það skortir lyf á hamfarasvæðunum, en aðgengi að nauðsynlegum lyfjum getur skipt sköpum í bata særðra og sjúkra. Það tekur tíma að flytja mikið magn af lyfjum milli heimsálfa, því um flutning þeirra gilda oft strangar reglur og staðan á Haítí erfið. Við erum að vinna að því að koma næstu sendingum á áfangastað," segir Guðbjörg Edda Eggertsdóttir, aðstoðarforstjóri Actavis í tilkynningu.