Lyfjafyrirtækið Actavis hefur hafið sölu á þremur nýjum samheitalyfjum í Evrópu. Um er að ræða mígrenilyfið Sumatriptan, geðrofslyfið Risperidone og ógleðilyfið Granisetron sem markaðssett verða af Actavis og viðskiptavinum Medis víða í Evrópu, að því fram kemur í segir í tilkynningu.

Sumatriptan er eitt mest selda mígrenilyf í heiminum í dag og hefur linað þjáningar milljóna mígrenisjúklinga um áraraðir, segir í tilkynningunni.

Risperidone er notað gegn geðtruflunum af völdum geðklofa ásamt vissum tegundum geðhvarfa og þunglyndis og er í dag eitt mest notaða geðlyfið í Bandaríkjunum. Granisetron dregur úr ógleði og uppköstum sem eru meðal fylgikvilla sterkrar lyfjameðhöndlunar gegn krabbameini.

Þróun þessara nýju lyfja hefur staðið yfir undanfarin ár í þróunarverksmiðjum Actavis á Íslandi og Möltu og hjá samstarfsaðilum Actavis á Indlandi.

Einkaleyfisvernd lyfjanna er nú að falla úr gildi í fyrstu Evrópulöndunum og getur Actavis því hafið sölu þeirra á þeim mörkuðum. Samhliða sölu Actavis á lyfjunum sér Medis, dótturfyrirtæki Actavis, um sölu lyfjanna til annarra lyfjafyrirtækja sem markaðssetja þau undir eigin vörumerkjum.