Actavis ætlar sér að verða þriðja stærsta samheitalyfjafyrirtækið í heiminu án Pliva, segir Róbert Wessman, forstjóri félagsins í samtali við AFX fréttaveituna, og skoðar nú hugsanleg kaup á fyrirtækjum í Frakklandi og Ítalíu.

Actavis hefur ákveðið að hækka ekki kauptilboð sitt í króatíska samheitalyfjafyrirtækið til að mæta hærra tilboði frá bandaríska félaginu Barr Parmaceuticals, sem hefur boðið 820 króatískar kúnur á hlut.

Kauptilboð Actavis nemur 795 kúnum á hlut, en Actavis kom af stað söluferli í mars þegar fyrirtækið gerði óvænt kauptilboð í Pliva.

Íslenska fyrirtækið ræður yfir rúmlega 20% hlutafjár í Pliva og Actavis áskilur sér þann rétt að ganga aftur til samninga ef Barr tekst ekki að kaupa Pliva.

Róbert segir að hann búist við aukinni samþjöppun fyrirtækja á samheitalyfjamarkaði og að Actavis muni áfram vaxa með yfirtökum, en félagið hefur keypt 20 erlend fyrirtæki á síðustu sex árum.

Hann segir Actavis vera að skoða fyrirtæki í Mið- og Austur-Evrópu, ásamt fyrirtækjum í Frakklandi og Ítalíu og að markmiðið sé að verða þriðja stærsta samheitalyfjafyrirtæki heims, en samheitalyfjamarkaðurinn vex um 14% árlega, samkvæmt upplýsingum rannsóknarfyrirtækisins Generic Phamaceutical Association. Talið er að markaðurinn velti um 45 milljörðum Bandaríkjadala á ári.

Róbert segir að Actavis íhuga skráningu á erlendan hlutabréfamarkað þegar fyrirtækið nálgast þriðja sætið. Ísraelska samheitalyfjafyrirtækið Teva er það stærsta sinnar tegundar í heiminum og Sandoz, samheitalyfjaeining svissneska lyfjarisans Novartis, er í öðru sæti.